Til baka | Prenta |
Bæjarstjórn - 371 |
Haldinn í fundarsal á bæjarskrifstofunum að Hafnargötu 2 á Reyðarfirði,
27.02.2024 og hófst hann kl. 17:00 | | Fundinn sátu: Birgir Jónsson aðalmaður, Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar, Þuríður Lillý Sigurðardóttir aðalmaður, Hjördís H. Seljan Þóroddsdóttir 1. varaforseti bæjarstjórnar, Stefán Þór Eysteinsson aðalmaður, Ragnar Sigurðsson aðalmaður, Kristinn Þór Jónasson aðalmaður, Heimir Snær Gylfason varamaður, Jóhanna Sigfúsdóttir aðalmaður, Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri, Gunnar Jónsson embættismaður, Þórður Vilberg Guðmundsson embættismaður. | | Fundargerð ritaði: Gunnar Jónsson, bæjarritari | | Fundurinn er aukafundur í bæjarstjórn sem boðaður er með samráði forseta bæjarstjórnar og bæjarfulltrúa. Fundurinn er fjarfundur og haldinn í fjarfundi á Zoom. | |
| | Dagskrá: | | | | 1. 2011203 - Stjórnkerfisnefnd 2020-2024 | Forseti bæjarstjórnar mælti fyrir tillögu. Vísað frá bæjarráði sem stjórnkerfisnefnd tillögu að breytingum á yfirstjórn sveitarfélagsins. Tillaga byggir á nýju skipuriti sem samanstendur af tveimur fagsviðum og tveimur stoðsviðum sem starfa þvert á fagsviðin auk skrifstofu bæjarstjóra sem ber m.a. ábyrgð á stjórnsýslu sveitarfélagsins. Stjórnsýslu- og þjónustusvið verður lagt niður og nýtt mannauðs- og umbótasvið tekur við hluta af verkefnum þess. Skýrari áhersla verður í skipuriti á mannauðs- og umbótamál sem dregur fram mikilvægi þeirra þátta í starfsemi og stjórnkerfi sveitarfélagsins. Starf mannauðsstjóra verður lagt niður og færist það til nýs sviðsstjóra mannauðs- og umbótasviðs. Verkefni tengt stjórnsýslu, upplýsingatæknimálum og þjónustu færast til skrifstofu bæjarstjóra og veitir bæjarritari henni forstöðu. Starf atvinnu- og þróunarfulltrúa verður lagt niður og stýrir bæjarstjóri þeim verkefnum með sviðsstjórum og öðrum starfsmönnum. Breytt verður heiti á framkvæmdasviði til samræmis við heiti á nefnd í skipulags- og framkvæmdasvið. Breytt verður heiti á fjármálasviði í fjármála- og greiningarsvið. Breytingar og tilfærslur verða á stöðugildum á milli stoðsviðanna tveggja sem og skrifstofu bæjarstjóra í takt við skilgreiningar á verkefnum en ekki verður í heildina um breytingu á fjölda stöðugilda að ræða.
Bæjarstjóra er falin endanleg útfærsla breytinga sem leiða af ákvörðun þessari þ.m.t. breytingum sem snúa að skipulagi og útfærslum stöðugilda, starfslýsingum starfsmanna, stjórnsýslu, samþykktum, ferlum, reglum og fjárhagsáætlun málaflokka sem um ræðir. Enginn tók til máls. Bæjarstjórn samþykkir með 9 atkvæðum tillögu að breytingu á stjórnskipulagi yfirstjórnar sveitarfélagsins. | | |
| 2. 2011203 - Stjórnkerfisnefnd 2020-2024 | Forseti bæjarstjórnar mælti fyrir tillögu. Vísað frá bæjarráði sem stjórnkerfisnefnd tillögu um breytingar í fræðslumálum sveitarfélagsins. Tillagan felur í sér eftirfarandi. Leikskóli Fjarðabyggðar: Lagt er til að leikskólar verði sameinaðir í eina stofnun og núverandi leikskólar verði starfsstöðvar innan nýrrar stofnunar sem heitir Leikskóli Fjarðabyggðar. Í sameinuðum Leikskóla Fjarðabyggðar stýrir leikskólastjóri sinni starfsstöð með breyttum áherslum í nýrri starfslýsingu. Skólastjóri ber ábyrgð á stjórnun og faglegu starfi skólans gagnvart stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu. Störf aðstoðarleikskólastjóra falla niður. Sérkennslustjóri hverrar starfsstöðvar sinnir hlutverki tengiliðar og er staðgengill skólastjóra. Leikskóli á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði verða tekinn úr samrekstri með Breiðdals og Stöðvarfjarðarskóla og stýrir deildastjóri starfi leikskólans. Við Leikskóla Fjarðabyggðar verður ráðinn fagstjóri sem leiði faglegt starf hinnar nýju stofnunar. Leikskóli Fjarðabyggðar fellur undir stjórnunarlega ábyrgð stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu á fjölskyldusviði. Grunnskóli Fjarðabyggðar: Lagt er til að grunnskólar verði sameinaðir í eina stofnun og núverandi grunnskólar verði starfsstöðvar innan nýrrar stofnunar sem heitir Grunnskóli Fjarðabyggðar. Í sameinuðum Grunnskóla Fjarðabyggðar stýrir grunnskólastjóri sinni starfsstöð en staðan verður án kennsluskyldu og með breyttum áherslum í nýrri starfslýsingu. Skólastjóri ber ábyrgð á stjórnun og faglegu starfi skólans gagnvart stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu. Störf aðstoðarskólastjóra falla niður sem og störf deildastjóra sérkennslu. Auglýstar verða lausar stöður verkefnastjóra á hverri starfsstöð sem sinnir hlutverki tengiliða ásamt öðrum störfum og í því felst staðgengilsstaða skólastjóra. Starf skólastjóra Breiðdals og Stöðvarfjarðarskóla fellur niður en daglegu starfi skólans stýrir deildarstjóri skólans með stjórnunarlegum stuðningi skólastjóra á Fáskrúðsfirði. Við Grunnskóla Fjarðabyggðar verður ráðinn fagstjóri sem leiðir faglegt starf hinnar nýju stofnunar. Grunnskóli Fjarðabyggðar fellur undir stjórnunarlega ábyrgð stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu á fjölskyldusviði. Tónlistarskóli Fjarðabyggðar: Lagt er til að tónlistarskólar verði sameinaðir í eina stofnun og núverandi tónlistarskólar verði starfsstöðvar innan nýrrar stofnunar sem heitir Tónlistarskóli Fjarðabyggðar. Störf tónlistarskólastjóra falli niður. Í sameinuðum Tónlistarskóla Fjarðabyggðar verði einn tónlistarskólastjóri ásamt aðstoðartónlistarskólastjóra í 75% stjórnunarstöðu. Auglýst verður staða skólastjóra Tónlistarskóla Fjarðabyggðar og aðstoðartónlistarskólastjóra. Skólaþjónusta Fjarðabyggðar: Lagt er til að skólaþjónusta verði efld til að stuðla að bættu faglegu starfi þvert á stofnanir með það að markmiði að mæta þörfum barna með áskoranir. Fjölgað verður fagaðilum sem vinna jöfnum höndum að þjónustu og þörfum barna í skólum Fjarðabyggðar. Ráðið verði í þrjú ný stöðugildi þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og náms- og starfsráðgjafa í skólaþjónustu.
Bæjarstjóra er falin endanleg útfærsla breytinga sem leiða af ákvörðun þessari þ.m.t. breytingum sem snúa að skipulagi og útfærslum stöðugilda, starfslýsingum starfsmanna, stjórnsýslu, samþykktum, ferlum, reglum og fjárhagsáætlun málaflokka sem um ræðir.
Til máls tóku: Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, Ragnar Sigurðsson, Jón Björn Hákonarson Bæjarstjórn samþykkir með 8 atkvæðum tillögu stjórnkerfisnefndar um breytingar í fræðslumálum. Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir greiðir atkvæði gegn tillögunni. | | |
|
| | Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:27 |
|
|
Til baka | Prenta |